Bóksala í 100 ár!
Bókaverzlun Jóns Eyjólfssonar var stofnuð þann 25. maí 1920 og fagnar því aldar afmæli í dag. Bókaverzlunin var í raun sjálfstæð verslun á sér kennitölu sem var rekin samhliða Versluninni Bræðurnir Eyjólfsson sem var stofnuð nokkrum árum fyrr og saman mynda þessar verslanir Gömlu Bókabúðina, eins og við þekkjum hana í dag.
Hér fyrir neðan má lesa bréf ábyrgðarmanna verslunarinnar og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir að ábyrgjast bóksölu Jóns Eyjólfssonar á sínum tíma.
Við undirritaðir skuldbindum okkur hér með til sem sjálfskuldaábyrgðarmenn, einn fyrir báða og báðir fyrir einn, að ábyrgjast Bóksalafélaginu í Reykjavík full skil samkvæmt lögum þess á andvirði bóka þeirra er herra Jón Eyjólfsson á Flateyri fær hjá því sem útsölumaður nefnds félags. Rísi málsókn út af vanskilum við félagið af hendi herra Jóns Eyjólfssonar, Flateyri skuldbindum við okkur, einn fyrir báða og báðir fyrir einn, samkv. 17. gr. viðskiftaskilyrða Bóksalafélagsins við útsölumenn sína, til að hlíta varnarþingi í slíku máli fyrir gestarétti Reykjavíkurkaupstaðar, sem og öðrum ákvæðum nefndra greinar. Til staðfestu er ábyrgðarskjal þetta af okkur undirskrifað í viðurvist tveggja tilkvaddra votta.
Flateyri, 25. maí 1920
Snorri Sigfússon
Kr. Ásgeirsson
Vitundavottar:
Guðm. Sigurðs
Sturla Ebenenzersson
Í tilefni af tímamótunum létum við slá gullmynt í nafni verslunarinnar. Fyrir utan að vera skemmtilegur safngripur má versla 1 kg af notuðum bókum fyrir hverja mynt. Auk þess að slá mynt í tilefni af afmælinu verður haldin mikil rithöfunda- og tónleikaröð í kaupmannsíbúðinni út árið, og hefst sú dagskrá á sýningu Auðar Jónsdóttir, þar sem hún fjallar um bók sína, Ósjálfrátt, sem gerist að miklu leiti á Flateyri.