Fimm daga ferðalag um Vestfirði
Undanfarin ár hefur verslunarstjóri Bókabúðarinnar farið nokkra hringi um Vestfirðina að dreifa Vestfjarðarkorti sem hann gefur út árlega. Hann... já, eða ég, ákvað að setja niður á blað mína uppáhalds staði á Vestfjörðunum, þar sem ég nýt þess að slaka á, borða góðan mat, flakka á milli náttúrulauga og njóta stórkostlegrar náttúru Vestfjarða.
Það væri auðvelt að eyða fleiri vikum á ferð um Vestfirðina, en í þetta sinn ætla ég að miða við fimm daga ferð sem hefst og endar í Reykjavík. Fyrir vikið þarf ég að sleppa mörgum æðislegum stöðum úr ferðalýsingunni, og sjálfsagt er til nægilegt efni til að skrifa upp aðra gjörólíka og frábæra fimm daga ferð um Vestfirði. - En þetta er minn klassíski ferðahringur sem ég fer með mína gesti í þegar mig langar að sýna þeim mína uppáhaldsstaði í akstursleið.
DAGUR 1
Fyrsta skyldustoppið í þessum Vestfjarðarhring er reyndar ekki á Vestfjörðum, en það er Rjómabúið á Erpstöðum, sem selja besta ís Íslands, gerður úr Vestfirskum aðalbláberjum. Þar er einnig óhætt að mæla með gómsætu skyrkonfekti sem hægt er að japla á, á meðan maður fylgist með lífinu í sveitinni.
Leiðin liggur næst á Hólmavík þar sem er tilvalið að fá sér göldrótta súpu á Galdrasafninu samhliða því að kynna sér vestfirskar nábuxur og aðra áhrifamikla galdra. Þegar Galdrasafnið er yfirgefið skal setja Sigur Rós í botn og keyra af stað inn á hinar töfrandi Strandir. Hrikaleg náttúra og klettar í sjófram draga fram hið sanna Ísland. Hvergi á Íslandi skilur maður smæð mannsins eins vel og umvafinn veðurbarinni náttúru svæðisins. Fossar frussast niður allar hlíðar og það er einmitt undir einum slíkum fossi sem að kyngimagnaðasta hótel Íslands er, Hótel Djúpavík! Í Dúpuvík má finna allt til að næra bæði líkama og sál, æðislegur veitingastaður, mögnuð náttúra og einstakar listasýningar í gömlu síldarvinnslustöðinni sem fór í eyði fyrir tæpum 70 árum, en var á sínum tíma langstærsta steinsteypubygging Íslands.
Ef þú hélst að þú værir kominn á enda veraldar í Djúpuvík, þá var það ekki svo, því ef þú keyrir örlítið lengra munt þú finna Krossneslaug sem er án efa einhver stórbrotnasta sundlaug Íslands. Eins og það er nú dásamlegt að svamla í henni í blóðrauðu sólarlagi þá jafnast ekkert við þá upplifun að liggja í heitu vatninu þegar úfið atlandshafið skellur úthafsöldum sínum á kletta og grjót í fjöruborðinu við sundlaugina.
DAGUR 2
Frá Ströndum liggur leiðinn yfir Steingrímsfjarðarheiði og inn í Djúp. Þótt það sé freistandi þjóta í gegnum Djúpið á hraðferð er það vel þess virði að beygja inn Mjóafjörðinn. Þar má meðal annars finna Hörgshlíðarlaug þar sem óðar Instagramhetjur keppast um að mynda sig í. Og þar stutt frá er ævintýraheimurinn í Heydal, þar sem finna má finna fjölbreytta náttúrupotta og suðræna innisundlaug. Það væri í raun auðvelt að skrifa heila fimm daga ferðasögu, bara um Heydalinn því þar má fara á Hestum um fjöll og firnindi eða flakka um fjörðinn á kayak. Þá er ekki óalgengt að bæði Refir og Uglur heimsæki staðinn, en þar eru fyrir bæði vinalegir hundar og talandi páfagaukur sem bíður alla velkomna á milli þess sem hann stríðir fólki með því að leika fjölbreyttar símhringingar.
Mér er það minnistætt þegar ég fékk mér eitt sinn að borða Í Heydal. Þá hafði ég pantað mér bleikju en þegar þjónninn kom inn í eldhúsið heyrði ég kokkinn segja að bleikjan væri búinn. Bauðst þá þjónninn til þess að stökkva niður í vatn og ná í eina Bleikju. Tíu mínútum síðar var ég kominn með einhverja þá bestu bleikju sem ég hef smakkað á diskinn fyrir framan mig.
Örlítið utar í Djúpinu má finna Litlabæ, þar sem er dásamlegt að setjast niður og borða vöfflur með útsýni yfir fjörðinn, eða þá inn í Litlabæ, sem er eins og nafnið gefur til kynna, mjög lítill, þrátt fyrir að þar hafi búið tæplega 30 manns á seinustu öld. frá Litlabæ er frábært útsýni yfir Skötufjörðinn, sem er vinsæll viðkomustaður hvala, eins og reyndar Djúpið allt, enda er það nefnt matarkista Íslands. Í næsta nágreni við Litlabæ er Hvítanes þar sem iðulega má sjá seli sólbaða sig í tuga ef ekki hundraða tali á klettum og steinum í fjörunni.
Á Ísafirði er eina brugghús Vestfjarðar, Dokkan. Þar er tilvalið að setjast niður eftir langan dag og smakka á því besta sem vestfirska vatnið hefur að bjóða upp á í áfengu formi. Tilvalinn fordrykkur fyrir Tjöruhúsið, hafir þú ekki þegar verið búinn að borða á þig gat þann daginn. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þann magnaða veitingastað, en hvað sem þú gerir, þá verður þú að smakka Gellurnar hans Magga, þessar stökku með mjúku fyllingunni!
DAGUR 3
Gott er að byrja daginn á kringlu með skinku og osti í Gamla Bakaríinu, slíkt er fyrir löngu orðinn þjóðarréttur Ísfirðinga, ekki að ástæðu lausu, enda fá bakarí sem toppa það Gamla á Ísafirði.
Frá Ísafirði liggur leiðin upp á Bolafjall í Bolungarvík, sem er magnaður viðkomustaður, hvort sem þú vilt freista þess að sjá til Grænlands á heiðskýrum degi eða keyra upp í þá svörtustu þoku sem þú munt upplifa. Þá er stutt stopp í Ósvör aldrei vond hugmynd.
Eftir ferðalag í gegnum tvenn göng frá Bolungarvík yfir í hinn fagra fjallahring Önundarfjarðar er tilvalið að keyra út á Flateyri. Þar er Gamla Bókabúðin auðvitað skyldustopp, elsta upprunalega verslun Íslands. Að stíga þangað inn er eins og að ferðast aftur í tíman. Hvergi á Íslandi hefur verslun og íbúð varðveist jafn vel eins og í Gömlu Bókabúðinni, þar sem gestir geta keypt bækur í kílóavís af langafasyni stofnanda verslunarinnar.
Besta leiðin til að kynnast Önundarfirði er að sigla um hann á Kayak. Þar sem hvítur sandurinn krafsar sig upp úr sægrænum sjónum og fuglar allt um kring. Holtsbyrggja er fyrir löngu orðin þekkt fyrir sína suðrænu sanda, þar sem sundgarpar stinga sér til sunds á meðan krakkarnir busla í sjónum og byggja kastala. Holtssandur er hin sannkallaða sólarströnd Íslands.
Það leiðist svo engum á kvöldin á Flateyri, þar sem ferðaþjónar á svæðinu hafa tekið sig saman um að vera með daglega viðburði í allt sumar, allt frá harðfiskverkun, fræðslugöngur um snjóflóðin og tónleika á hinum sögufræga Vagni. Nánari upplýsingar um daglega viðburði má nálgast á síðunni VisitFlateyri.is
DAGUR 4
Nú fer hver að verða síðastur að fara Hrafnseyrarheiðina áður en göngin á milli Dýrafjarðar og Arnafjarðar opna. Þátt fyrir að vera erfiður vegatálmi á veturna er leiðin ein sú fallegast sem þú munt keyra á ferð þinni um Vestfirði, þar sem Arnarfjörðurinn blasir við þér og vegurinn hlykkjast niður fjallshlíðina. Í botni Arnarfjarðar býr konungur Vestfjarða, sjálfur Dynjandi. Hann er mikilfenglegur úr fjarska en það jafnast ekkert á við það að ganga göngustíginn upp á enda og standa beint undir þessum fegursta fossi Íslands!
Frá Dynjanda liggur leiðin í Reykjafjörð, þar sem hægt er að stinga sér til sunds eða leggjast í sandbotn náttúrulaugarinna sem er þar fyrir ofan. Að sundferð lokinni er komið að Vegamótum á Bíludal, sem er einfaldlega besti hamborgarastaður landsins. Það er leitun að jafn vinalegri sjoppu á landsbyggðinni sem bíður upp á jafn metnaðarfullan mat og á Vegamótum.
Á Bíldudal má finna yndislegt fólk, en þó er hlutfall skrímsla talsvert hærra þar en annarstaðar á Íslandi og því mælum við með því að kynnast þeim í Skrímslasetrinu á Bíldudal, það er æskilegra en að mæta þeim út í fjöru. Ef viðkvæmar sálir og lítil hörtu þurfa smá huggun, fegurð og gleði eftir skrímslakynnin er upplagt að gera sér ferð út í Selárdal, þar sem listamaðurinn með barnshjartað bjó. Það er okkar yndislega Disney veröld. Þar má einnig heimsækja sveitabæ Gísla á Uppsölum.
Á Tálknarfirði er lítil sjálfsafgreiðslufiskibúð sem selur þann ferskasta fisk sem þú færð, og viðskiptahættirnir byggjast á því að treysta því að viðskiptavinirnir greiði fyrir vörurnar. Það verður varla vestfirskara en það. Fyrir þá sem ekki hafa tekið ferðagrillið með sér er tilvalið að snæða kvöldverð í Stúkuhúsinu á Patreksfirði. Þar er boðið upp á dýrindis mat í fallegu húsi með útsýni yfir allan Patreksfjörðinn.
DAGUR 5
Er ekki alltaf best að geyma það besta þar til síðast? Þessi dagur verður að minnsta kosti alveg magnaður fyrir náttúru unnendur. Við byrjum daginn á því að heimsækja hann Garðar gamla, sem er fyrsta stálskip okkar íslendinga, en því hefur verið strandað í Skápadal í Patreksfirði og er skipið eitt af fjölmörgum instagramstjörum Vestfjarða.
Áfram liggur leiðin út á Látrabjarg, sem er 14 km langt og 440m hátt bjarg sem rís úr hafinu, þetta er stærsta fuglabjarg Íslands og fjölmennasta lundavarp heims, þar sem hægt er að komast í ótrúlega nálægð við þennan sendiherra okkar. Ótrúlegt en satt þá eru fleiri og skemmtilegri lundar á Látrabjargi en á Laugaveginum í Reykjavík. Látrabjargið er einnig magnaður staður þegar kemur að sjóslysum og björgunum og því skaltu alls ekki missa af minjasafninu á Hnjóti þar sem fræðast má líf og dauða fólks við Bjargið.
Næst er förinni heitið niður á Rauðasand. Það er töfrum líkast að ganga berfætt út á þennan sólbakaða rauða sand sem virðist engan enda ætla að taka, og þarna svo fjarri allt og öllum má finna lítið franskt kaffihús sem er fallegt vin í þessari blautu, rauðu eyðimörk.
Nú fer að líða að lokum og ferjan Baldur nálgast ófluga til að sækja þig og flytja aftur í gráan hversdagsleikann við Miklubraut. En á meðan þú bíður getur þú notað seinustu andartökin á Vestfjörðum í Hellulaug við Flókalund, þar sem heitt vatnið lekur niður klettana á bakvið þig á meðan þú reynir að telja eyjarnar í Breiðafirði fyrir framan þig.
Allar myndirnar í þessari færslu og fleiri til má finna á Instagramsíðu Eyþórs, verslunarstjóra Gömlu Bókabúðarinnar á Flateyri.