Gamla Bókabúðin opnar vefverslun eftir 107 ár í rekstri.
Eftir 107 ár í rekstri höfum við ákveðið að opna rafrænt útibú á veraldarvefnum. Þrátt fyrir að það jafnist ekkert við þá upplifun að mæta í holdheimum í Gömlu Bókabúðina, þar sem tíminn hefur staðið í stað, höfum við í auknu mæli verið að selja vörur okkar í gegnum síma, samfélagsmiðla og tölvupósta.
Með því að taka í gagnið vefverslun verður mun auðveldara að panta vörur frá okkur og fá heimsent, en vöruúrvalið hefur verið að vaxa mikið upp á síðkastið. Bæði höfum við verið að taka inn vandaðar erlendar og innlendar hönnunarvörur ásamt því að vera í framleiðslu á okkar eigin vörum, sem hafa verið mjög eftirsóttar en erfitt að nálgast, nema á Flateyri.
Þá höfum við einnig byrjað að taka til hliðar verðmætar og fágætar bækur sem verða aðgengilegar á vefnum, en áfram verður þó kílóverð á notuðum bókum hjá okkur.
Það er okkur því mikið gleðiefni, að elsta upprunalega verslun Íslands skuli nú státa af yngstu vefverslun landsins.