Ókeypis heimsending ef verslað er fyrir meira en 20,000 kr.

Stofutónleikar og Sögusýning

Undanfarna daga hefur Gamla Bókabúðin á Flateyri staðið fyrir tveimur skemmtilegum viðburðum á Flateyri. Á laugardaginn kom rithöfundurinn Auður Jónsdóttir til Flateyrar og var með sýningu sína, Auður og Auður, sem hún byggir á bók sinni Ósjálfrátt, sem gerist að miklum hluta á Flateyri þegar Auður bjó þar og vann í fiski. Var sýningin því sett upp í gamalli fiskvinnslu á Flateyri, sem setti sýninguna í skemmtilega og viðeigandi umgjörð sem gladdi áhorfendur. Hátt í hundrað manns mættu á sýninguna og rann allur aðgangseyrir óskiptur til Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.

Þriðjudagskvöldið var svo söngvaskáldið Svavar Knútur með stofutónleika í Kaupmannsíbúðinni í Gömlu Bókabúðinni. 30 manns mættu á þá tónleika og var uppselt. Tónleikar Svavars Knúts voru æðislegir, þar sem hann spilaði frumsamin lög í bland við önnur lög ásamt því að lesa ljóð og fara með gamanmál, eins og honum einum er lagið. Það er sjálfsagt ekki hægt að komast í jafn mikla nálægð við listamennina eins og á stofutónleikum í Gömlu Bókabúðinni og umgjörðin algjörlega einstök á Íslandi.

Til stóð að fagna 100 ára bóksölu verslunarinnar með tónleikum, upplestrum og öðrum viðbuðrum allt árið 2020, en vegna Covid hefur sú dagskrá riðlast töluvert, en við erum núna á fullu að bóka og skipuleggja næstu viðburði og því tökum við glöð við öllum ábendingum eða óskum um að fá að koma fram og flytja lög, vera með upplestur eða aðra viðburði í Bókabúðinni í ár.

Ef þú ert listamaður á ferð um landið, heyrðu þá endilega í okkur og við gerum eitthvað skemmtileg saman, hvort sem það er í Bókabúðinni eða á öðrum óhefðbundnum stöðum í Önundarfirði.