Þessi einstaka bók og fallega prentverk fæst nú loksins á ný í Gömlu Bókabúðinni. Við höfum til sölu tvö seinustu eintökin af bókinni, en hún kom aðeins út í 100 tölusettum eintökum og höfum við til sölu eintök númer 91 og 92.
Bókin er handbundin í íslenskt sauðskinn frá Loðskinni á Sauðárkróki og afhent í fallegum viðarkassa. - Eigulegur og fallegu safngripur sem geymir merkilegar upplýsingar og einstar myndir Benedikts.
Inn á vefsíðu náttúrustofnun Íslands er góð lýsing á þessari merku, fallegu og fágætu bók:
Bókin Íslenskir fuglar er gefin út af bókaútgáfunni Crymogea í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands en handrit bókarinnar hefur verið í vörslu stofnunarinnar í yfir hálfa öld. Sérfræðingar stofnunarinnar unnu að útgáfunni og ritun skýringa og er bókinni fylgt úr hlaði með ítarlegum eftirmála eftir Kristin Hauk Skarphéðinsson fuglafræðing. Þar er gerð grein fyrir stöðu fuglarannsókna á Íslandi undir lok 19. aldar og þátt Benedikts í sögu íslenskra náttúruvísinda.
Benedikt Gröndal var einn mesti fjölfræðingur og hæfileikamaður íslenskrar menningarsögu. Hann er eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar, höfundur sígildra lausamálsverka á borð við Heljarslóðarorrustu og Dægradvöl. Hann var fyrstur Íslendinga til að ljúka meistaraprófi í norrænum fræðum við Kaupmannahafnarháskóla, samdi kennslubækur í náttúrufræðum og var listaskrifari og teiknari. Hann mótaði til að mynda eina kunnustu tákngerð íslensks þjóðernis, fjallkonuna. Benedikt var frumkvöðull í söfnun náttúrugripa og helsti hvatamaður að stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags árið 1889 og fyrsti formaður þess. Eitt helsta verkefni hans sem formanns Náttúrufræðifélagsins var að koma á fót náttúrugripasafni í Reykjavík og samhliða því vann hann að skráningu dýra og plantna með lýsingum og teikningum. Eftir Benedikt liggja nokkur handrit sem og stakar myndir sem hann teiknaði af íslenskum dýrum og gróðri. Tvö helstu handritin eru Dýraríki Íslands sem kom út árið 1976 og Íslenskir fuglar sem nú er loks út komin á bók.
Á titilblaði er Íslenskum fuglum sagt lokið í Reykjavík árið 1900. Af dagbókarfærslum Benedikts má þó sjá að hann vann að handritinu allt til ársins 1906 þegar hann stóð á áttræðu. Handritið hefur að geyma 100 tölusettar fuglateikningar, oft margar tegundir saman á mynd. Allar algengustu tegundir eru sýndar en einnig flækingar sem Benedikt teiknaði ýmist eftir eintökum náttúrugripasafnsins eða eftir teikningum úr öðrum bókum. Hverri teikningu fylgir misítarleg lýsing á viðkomandi fugli sem Benedikt skrautskrifaði sjálfur auk þess að skrautskrifa titilsíðu og formála.